• Gunnar Hilmarsson

    Gunnar Hilmarsson tilheyrir eflaust hraustasta hópi grænkera ásamt eiginkonu sinni, Önnu Huldu.
    Gunnar er tónlistarmaður/gítarleikari, kennari og stundar Crossfit af miklum eldmóði.

  • Hver eru þín helstu afrek/þitt mesta stolt?

    Mitt helsta afrek er kannski að hafa náð í konuna mína og eignast með henni 2 börn sem eru yndisleg. Er þannig þenkjandi að ég er ekki mikið að hugsa um afrek mín, kannski tengist það þvi að ég eins og margir af minni kynslóð er alinn upp af kynslóð þar sem mont og drambsemi þóttu hinn mesti löstur. Hef atvinnu af þvi að spila og kenna á gítar og er bara ansi ánægður með spila reglulega með frábærum listamönnum og getað lifað á þessu.

    Get ekki sagt að ég líti að það sem afrek að vera vegan því að það er oftast bara ekkert mál. ☺

    Hversu lengi hefur þú verið vegan og hvað varð til þess að þú varðst það?

    Erfitt að segja nákvæmlega, tók síðasta kjötbitann sumarið 2016 en eftir það tók við smá aðlögunarferli í marga mánuði þannig að þetta eru allavega rúm 9 ár síðan mataræðið varð vegan.

    Þegar ég uppgötvaði hvaða gríðarlegu áhrif neysla okkar á dýraafurðum hefur á umhverfið og meðferð dýra ætluð til manneldis, þá hugsaði ég,,hingað og ekki lengra ég er hættur þessari vitleysu!” Hafði svo sem lengi vitað þetta en það var einhvernvegin þæginlegra bara að loka augunum fyrir því og kaupa minn hakkpakka í Bónus eins og aðrir.

    Hvernig voru fyrstu skrefin í átt að veganisma? Var eitthvað auðveldara eða erfiðara en þú gerðir ráð fyrir?

    Fyrstu skrefin í átt að vegansimsa voru klárlega plöntumiðað matarræði sem ég prufaði nokkru sinnum í mínu ungdæmi alfarið út frá heilsufarslegum sjónarmiðum. Dýravelferð og umhverfisþátturrinn komu inn síðar. Kannski öfugt við það sem flestir gera.

    Ég vissi alveg að félagslega yrði þetta snúið sem það vissulega hefur verið. Það sem kom mér skemmtilega á óvart eftir að ég tók skrefið var að úrvalið af vegan matvöru var svo miklu meira en ég hafði haldið.


    Hver voru upphafleg viðbrögð þinna nánustu? Hefur eitthvað breyst síðan?

    Bara mjög góð bæði í upphafi og nú. Við konan mín vorum alveg samstíga í þessu og höfum allaf verið, sem gerir þetta miklu auðveldara. Foreldrar mínir og fjölskylda tóku þessu vel en voru svo sem ýmsu vön varðandi mataræði mitt frá því að ég var unglingur með vöðva og prótein æði. Það sem flestir eiga samt erfitt með að skilja er að veganismi er ekki mataræði, og margir haldið að þetta sé hégómi í mér til að líta betur út.


    Hvað er það auðveldasta og erfiðasta við þennan lífstíl/þetta siðferði?

    Er svo heppinn að í kring um mig, hvort sem það eru vinir eða fjölskylda þá er ég umvafinn góðu fólki. Fólk með mikla samkennd með öðrum og má ekkert aumt sjá. Ekkert þeirra er Vegan. Mér finnst það oft mjög erfitt, jafnvel fólk sem skilur hugmyndafræðina en bara getur ekki hætt að borða ost eða fá sér nautasteik. Get pirrast alveg svakalega á þvi.

    Auðvelt þykir mér að sneyða hjá dýraafurðum í mat og drykk en erfiðara er að velja aðrar neysluafurðir td. föt. Ég geri mitt besta í því og er alltaf að læra. Ég á svolítið af skóm og fötum sem eru ekki vegan. Ég nota það sem ég á en kaupi vegan föt eftir minni bestu vitund.


    Hvað myndiru ráðleggja þeim sem eru að taka sín fyrstu skref?

    Taka lítil skref í einu. Ég td byrjaði á því að taka út öll dýr (kjöt, fisk og kjúkling) en hélt inni eggjum og pældi ekkert í því hvað var í sósum og nammi o.þ.h.

    Gera þetta sem þæginlegast. Fyrir suma þýðir það kannski mikið af kjötlíki og unnum mat en aðra baunir og ávextir. Einnig hjálpar það að vera eiga vegan maka haha ☺

    Eins og ég sé þetta þá snýst þetta ekki um að vera fullkominn, sem verður aldrei, heldur að gera allt sem maður getur til að valda öðrum lífverum og umhverfi sem minnstum skaða.

    Eitt annað sem mig langar að koma að varðandi matarræðið, sem ég veit að hentar alls ekki öllum en hefur hjálpað mér gríðarlega að halda mínu striki. Ég fasta flesta daga. Er þá ekki að pæla í mat allan daginn og passa bara að borða vel og hafa matinn sæmilega hollan. Er mun orkumeiri á daginn fyrir vikið sem kemur sér vel þar flestir vinnudagar mínir eru mjög langir.

    Hef einnig meðfram tónlistinni stundað kraftaíþóttir ýmsar og fann í raun engan mun á mér eftir að ég skipti yfir í vegan matarræði. Framkvæmdi margar af mínum þyngstu lyftum á vegan matarræði td. 280 kg réttstöðulyftu 2022, sem er alls ekkert heimsmet en ágætt fyrir lítinn vegan gítaraleikara ☺

    Þakka kærlega fyrir mig og skora á alla að prufa grænkera lífsstílinn og dæma svo. Þetta er easy peasy!

    Þetta viðtal birtist fyrst í fréttabréfi Veganúar 2026.

    Við hvetjum áhugasöm um að skrá sig á næsta ári til að missa ekki af neinu!