
- Hvers vegna vegan?
- Viðtöl við Grænkera
- …
- Hvers vegna vegan?
- Viðtöl við Grænkera
- Hvers vegna vegan?
- Viðtöl við Grænkera
- …
- Hvers vegna vegan?
- Viðtöl við Grænkera
Ragnar Freyr
Ragnar er einn af stofnendum Vegan Íslands og hefur barist fyrir dýravelferð í meira en áratug.
Hver eru þín helstu afrek/þitt mesta stolt?
Er fyrst og fremst stoltur að hafa gerst vegan. Svo er ég ánægður með að hafa stofnað Vegan Ísland Facebook hópinn og hjálpað til við að koma Veganúar átakinu af stað á Íslandi. Það gleður mig alltaf ótrúlega mikið að heyra af fólki sem gerðist vegan í Veganúar. Mér fannst einnig mjög gaman af þvi að hanna og reka Vegan Ísland appið á sínum tíma. Og svo er ég ánægður með þátttöku mína í aktivisma í gegn um árin en ég hef haldið á skilti fyrir utan sláturhús, staðið vöku við hvalstöðina, öskrað fyrir framan Alþingi, tekið upp hlaðvarp, gert myndbönd, hannað veggspjöld og merki og talað við fólk um veganisma úti á götu. Allt hefur þetta vonandi gert eitthvað.
Hversu lengi hefur þú verið vegan og hvað varð til þess að þú varðst það?
Ég er búinn að vera vegan í 13 ár. Fyrir það var ég grænmetisæta í um þrjú ár. Ég held að þetta hafi verið samspil ýmissa þátta sem gerði það að verkum að ég fór að skoða grænmetisfæði og svo veganisma.
Í fyrsta lagi hef ég alltaf verið matvandur og aldrei verið hrifinn af kjötmeti og dýrafurðum nema að það væri framreitt og eldað á mjög sérstakan hátt. Svo eignaðist ég hund sem kenndi mér að dýr hafa persónuleika, vonir og langanir. Ég sá hundinn minn í öllum öðrum dýrum.
Ég var einnig mikið að skoða búddisma á þessum tíma og horfði upp til fólks sem talaði mikið um plöntumiðað mataræði og samkennd með dýrum. Ég er mikið fyrir það að kynna mér hlutina og kafaði djúpt í dýraafurðaiðnaðinn. Tók svo ákvörðunina um að gerast vegan í miðri skemmtiferð til Japans.
Hvernig voru fyrstu skrefin í átt að veganisma? Var eitthvað auðveldara eða erfiðara en þú gerðir ráð fyrir?
Mér fannst miklu auðveldara að gerast vegan heldur en að gerast grænmetisæta. Ég held að ég hafi bara borðað samlokur með osti í þessi þrjú ár sem ég var grænmetisæta en eftir að ég gerðist vegan opnaðist fyrir mér heill heimur af næringu. Mér fannst allt í einu gaman að elda og gaman að borða.
Þegar ég gerðist vegan voru fáar sérvörur til á Íslandi en ég held að það hafi samt verið ákveðin blessun því ég þurfti að læra að búa sjálfur til matinn minn og fyrstu árin mín sem vegan voru mun hollari heldur en allt sem áður var og allt sem kom síðan í kjölfar vegan gullárana fyrir covid.
Hver voru upphafleg viðbrögð þinna nánustu? Hefur eitthvað breyst síðan?
Ég var örugglega skrítinn og erfiður en ég var það staðfastur og viss að mér fannst og finnst ég ekki þurfa jákvæð viðbrögð frá öðrum. Ég er fyrst og fremst að gera þetta fyrir dýrin og sjálfan mig. Það skiptir aðra litlu máli hvað fer í mig og á.
Svo fann ég gott samfélag vegan fólks á Íslandi sem eru ennþá vinir mínir í dag. Það hjálpaði helling. Konan mín gerðist vegan fljótt eftir að ég tók af skarið og það er yndislegt að reka vegan heimili. Fjölskylda og vinir hafa auðvitað tekið misvel í þetta en eftir svona langan tíma er þetta bara orðinn hluti af fjölskyldulífinu og vinahópnum. Það er oftast gert ráð fyrir mér. Við höldum t.d. alfarið vegan jól og áramót með fjölskyldunni. Allur matur vegan þó svo að þau séu ekki vegan. Það þykir mér æðislegt og er þakklátur fyrir.
Hvað er það auðveldasta og erfiðasta við þennan lífstíl/þetta siðferði?
Það er langtum erfiðast að horfa upp á fólk sem þér þykir vænt um halda áfram neyslu sinni á dýraafurðum þrátt fyrir að vita hvaða áhrif það hefur á dýrin, jörðina og heilsuna. Og ég tala nú ekki um þegar fólk sem hefur verið vegan og veit allt snýr aftur til dýraafurðaneyslu.
Auðveldast er kannski bara þessi friður sem fylgir því að vita að ég er ekki að taka þátt í ömurðinni sem dýraafurðaiðnaðurinn er.Annars finnst mér mjög erfitt að kaupa á mig skó. Hef ekki ennþá náð að gera það auðvelt.
Hvað myndiru ráðleggja þeim sem eru að taka sín fyrstu skref?
- Ég myndi ráðleggja fólki sem er að byrja að:
- Kynnast öðru vegan fólki.
- Sækja helst í óunninn vegan mat. Hann er ódýrastur og hollastur.
- Ekki reyna að vera of fullkomin. Þó ég sé búinn að vera vegan í 13 ár er ég ennþá að rekast á hluti og læra. Við lifum í mjög óvegan heimi.
- Hafa gaman, bjóða fólki í mat og gera veganisma eftirsóknarverðan.
Þetta viðtal birtist fyrst í fréttabréfi Veganúar 2026.
Við hvetjum áhugasöm um að skrá sig á næsta ári til að missa ekki af neinu!
Veganúar 2026

